<$BlogRSDURL$>

Eigindleg aðferðafræði

Leiðabók í námi

Sunday, January 18, 2004

Eigindleg aðferðafræði
31.00.02.980
Guðmundur Birgisson

I. verkefni - Gagnrýni á greinina:

Silenced voices:life history as an approach to the study of South Asian women teachers eftir Anuradha Rakhit, (Researching racism in education, 1998, ritstj. Paul Conolly og Barry Troyna)


Í inngangi segir Anuradha Rakhit að í kennaranámi og í kennslu um 1970, hafi hún hafi fyrst upplifað aðskilnaðarstefnu, tilfinningu þess að vera fórnarlamb og vera ,,jaðarmanneskja”. Tuttugu árum síðar skrifaði hún doktorsritgerð um efnið, vegna þess að hún taldi þessa reynslu vera samfélagslegt málefni frekar en persónulega. Hún lýsir hvernig hún notaði ævisöguaðferð (life history methodology) til að rannsaka félagslega merkingu þessarar reynslu.

Höfundur byrjar á að segja sína eigin sögu, hvernig hún túlkar hana og hefur orðið fyrir persónulegum áhrifum og reynslu. Hún álítur að smáatriði úr eigin lífi muni hjálpa lesendum til að skilja mikilvægi þess að velja þessa aðferð.
Skv. Taylor og Bogdan (1984: 2, 78-81) þá er löng hefð fyrir ævisöguaðferðinni bæði innan mannfræðinnar og félagsfræðinnar. Rannsakandinn reynir að ná fram sjónarhorni einstaklingsins og aðalatriðum í lífsreynslu hans. Nálgunin gerir ráð fyrir skoðunum og eigin orðræðu um líf þess sem verið er að rannsaka. Munurinn á þessari aðferð og sjálfsævisögum er að rannsakandinn velur reynslu, skoðanir og sjónarhorn einstaklingsins og smíðar úr ævisögunni endanlega afurð.
Í stuttu máli er saga Rakhit á þá leið að hún fæddist og ólst upp í Indlandi og ber með sér þá menningu og tungumál. Til Bretlands kom hún árið 1966 og fannst hún strax vera utanveltu við breskt samfélag, auk þess að verða áþreifanlega vör við þá bresku hefð að draga fólk í dilka, sérstaklega eftir ytra útliti. Hún fann fyrir kynþáttafordómum og samfélagslegri slagsíðu gagnvart þeim sem ekki uppfylltu breskar ímyndir. Þetta skóp öðru fremur akademískan feril Rahkit, sem sótti um kennarstöður 1970 -1971 en fékk engar, því nám hennar var ekki metið í Bretlandi, en hún hafði BA gráðu í enskum bókmenntum og ensku. Hún fór þá í kennaranám og var ráðlagt að leggja fremur áherslu á stærðfræði, þar sem hún myndi ,,aldrei geta orðið enskukennari enskra barna”. Hún varð fyrir vonbrigðum, en fór í stærðfræðina. Þegar kom að æfingakennslu var hún beðin að klæða sig í vestræn föt því hún gæti annars lent í erfiðleikum í að vera meðtekin. Þetta viðhorf fannst henni fáránlegt og ganga gegn hugmyndum hennar um stolt og sjálfsmynd. Í síðustu æfingakennslunni komu deildarstjórar til að fylgjast með henni og var henni sagt að það væri bara gert þegar litaðir (colored) ættu í hlut. Rakhit lýsir síðan reynslu sinni sem kennari og þeim hindrunum sem hún mætir bæði meðal yfirmanna, samstarfsfólks, foreldra og nemenda. Hún tekur fram að henni hafi fundist erfitt að skrifa um eigin reynslu því hún þurfti að glíma við ýmsar tilfinningar sem komu upp á yfirborðið. Þetta varð til þess að hún ákvað að skoða lífssögur annarra asískra kvenkyns kennara.
Ástæða þess að hún velur að nota ævisöguaðferð segir hún vera þá að sjónarhorn og túlkun kvenkennara hafa ekki bara verið óskráð heldur raddir þeirra þaggaðar. Þegar hún fór að leita að aðgengilegu lesefni fann hún mjög fáar rannsóknir um asíska kvenkennara.
Rakhit notaði ,,veltiúrtak” (snowball sampling) og byrjaði innan síns vinahóps. Hún tók viðtöl við 20 kennara og þekkti 11 þeirra fyrirfam. Allir vildu taka þátt. Á grunni eigin reynslu skrifaði hún lista yfir atriði með mikilvægum breytum (judgment sampling). Þetta voru a) að hafa bæði fyrstu og aðra kynslóð af kennurum í rannsókninni, b) að hafa kennara á mismunandi aldri og stigum í rannsókninni. Stærsta vandamál rannsóknarinnar segir Rakhit var að ákveða hvenær hún ætti að hætta. T.d. kom fyrir að hún heyrði eitthvað um einhvern kennara sem vakti athygli hennar og hún ákvað svo að taka viðtal við. Upplýsinga var aflað með djúpviðtölum og tóku þau frá 1,5 klst upp í 4 klst og voru tekin upp á band. Stundum fannst henni þó réttara að kalla þau samtöl frekar en viðtöl. Hún punktaði hjá sér ýmis atriði eins og líkamstjáningu o.sv.frv. Hún tekur fram að viðmælendum hafi öllum liðið vel hjá sér, bæði vegna þess að þær voru allar konur, litaðar og með svipaða reynslu og hún sjálf. Það kom sem sagt í ljós að reynsla þeirra var ekki ólík hennar eigin reynslu, enda sagði hún frá sjálfri sér um leið og hún tók viðtölin. Ástæðu þess segir hún vera, að til að öðlast traust viðmælanda þurfi að ,,að gefa og þiggja”, ,,byggja brúna” (building brigdes) en hún segir jafnframt að sú aðferð sé af sumum talin vafasöm þar sem hún geti truflað gagnaöflun. Rakhit telur í sínu tilfelli ekki svo vera þar sem hún sé vel inn í skólamálum og gat forðast óþarfa spurningar, auk þess sem hún benti viðmælendum á að rannsóknin hennar væri í forgangi, en ekki vinátta við þá. Hún var oft spurð um eigin skoðanir og reynslu af viðmælendum, og hún svaraði þeim opið og hreinskilinislega auk þess sem hún gaf góð ráð. Þetta telur hún að hafi aukið á dýpt viðtalanna og þess sem kom út úr þeim.
Rakhit segir að þrátt fyrir að skólakerfið hafi breyst hratt á undanförnum árum sé margt ennþá eins og áður. Rannsóknin hennar leiddi í ljós að yfirborðsleg viðurkenning Breta (á fólki af erlendum uppruna) veldur því að þeim (asískum kvenkennurum) líður ennþá eins og þær séu í neikvæðu og fjandsamlegu umhverfi þar sem menning þeirra, tungumál og trúarleg gildi, njóta takmarkaðs áhuga innfæddra. Þær eru ýmist ósýnilegar, óhæfar, frumstæðar eða fjarlægar. Rakhit spyr: hvað er hægt að gera? Hægt er að breytast að innan, ef á því er þörf, en ekki er hægt að breyta húðlitnum.
Að lokum ítrekar Rakhit mikilvægi ævisöguaðferðarinnar – hefur styrkst í trúnni á því, eftir að hafa beitt henni sjálf. Hún leggur einnig áherslu á að aðferðin sé í báðar áttir (two way process) þar sem rannsakandinn og viðmælandinn geta lært af hvor öðrum.

Ég tel að ævisöguaðferðin sé spennandi og mikilvæg aðferð til að afla upplýsinga eins og Rakhit gerir. Ég held hins vegar að hún sjálf sé of mikill þátttakandi í eigin rannsókn og skoðanir hennar og viðhorf liti mjög viðtölin. Hún hefur áhrif á áreiðanleika rannsóknarinnar með því að skiptast á skoðunum við viðmælendur, segja frá eigin reynslu og gefa ráð. Maður spyr sig hvers sjónarhorn verið er að rannsaka og hvort rannsóknaráætlun Rakhits hafi verið nógu opin í upphafi. Eigindlegar rannsóknir byggjast á aðleiðslu (induction) þar sem byrjað er á fólkinu en ekki á kenningunum. Eigindlegi rannsakandinn þarf að vera á varðbergi gagnvart þeim áhrifum sem hann getur haft á viðmælandann. Ennfremur er ekki æskilegt að rannsaka staði eða fólk sem maður hefur persónuleg tengsl við, en Rakhit þekkti 11 af 20 viðmælendum sínum. Rannsakandinn þarf að setja sig í spor fólks og lifa sig inn í aðstæður – en Rakhit gerir meira en það. Hún er þátttakandi í rannsókinni þar sem hún byrjar á að skoða eigin ævisögu, áður en hún fer að afla annarra gagna. Rannsakandinn á að setja til hliðar eigin skoðanir, trú, viðhorf og fyrirfram hugmyndir en það gerir Rakhit ekki. Hún virðist leita markvisst að niðurstöðum sem passa við hennar eigin reynsluheim. Það gæti reynst erfitt að endurtaka rannsóknina a.m.k. fyrir hvítan karlmann.
Á móti má segja að Rakhit velur rannsóknarefni sem hún hefur mikinn áhuga á og virðist eiga traust viðmælanda vegna þess hvað hún á sameiginlegt með þeim. Það viðhorf að eigin reynsla sé samfélagslegt viðfangsefni er réttmætt og ennfremur ber að fagna þess að sjónum er beint að konum í minnihlutahópi sem oft eru ósýnilegar og raddir þeirra heyrast ekki. Niðurstöður rannsóknarinnar orka samt tvímælis; eru þær raunverulega lýsandi fyrir sjónarhorn asískra kvenkennara eða eru þær túlkun Rakhits á eigin reynslu, staðfestar með viðtölum við kunningjakonur og kunningjakonur þeirra? Eða nær hún fram þessum niðurstöðum vegna þess hversu auðvelt hún á með að samsama sig viðmælendum sínum? Um þetta má deila en rétt er samt að undirstrika mikilvægi ævisöguaðferðinnar til að læra af reynslu fólks af lífinu.

Æruverðugast:
Guðrún Vala Elísdóttir


Heimildir:

Taylor, Steven J og Robert Bogdan. 1984. Introduction to Qualitative Reseach Methods. New York: John Wiley & sons


Rakhit, Anuradha, 1998. Silenced voices: life history as an approach to the study of South Asian women teachers. Researching racism in education, ritstj. Paul Conolly og Barry Troyna


posted by Gudrun Vala  # 4:57 PM
Í gær fann ég loksins gömlu glósurnar mínar úr tímunum frá Rannveigu Traustadóttur. Þær eru alveg mergjaðar og svo fann ég líka Taylor og Bogdan bókina mína sem er líka alveg frábær. Rosalega líður mér vel, það er eins og ég hafi fundið gamlan vin. Á föstudaginn keypti ég ljósritað hefti í eigindlegum og ætla að byrja að lesa það á miðvikudaginn - námsdaginn minn. Annars er ég að vinna fyrsta verkefnið mitt hér - set það inn þegar ég er búin.
posted by Gudrun Vala  # 2:19 PM

Sunday, January 11, 2004

Fyrsta færsla í nýju leiðabókinni minni
posted by Gudrun Vala  # 1:46 PM

Archives

01/01/2004 - 02/01/2004  

This page is powered by Blogger. Isn't yours?